Skömmu eftir opnun Náttúrugripasafns Bolungavíkur, árið 1998, afhentu erfingjar Steins Emilssonar (1893-1975) jarðfræðings, safninu steina- og jarðfræðisafn hans. Safnið er mikið að vöxtum, í 44 kössum, og er sennilega með stærstu sýnasöfnum í jarðfræði sem koma úr einkaeigu.
Safnið er að mestu í upprunalegum kössum og hafa einstakir gripir (steinar eða jarðvegssýni) ekki verið skráðir nema að litlu leyti.
Að auki voru fjölmörg sýni úr safni StE til vörslu og til sýnis í Grunnskóla Bolungavíkur, einnig var eitthvað í geymslu hjá Bolungavíkurkaupstað. Þessir hlutir eru nú einnig í vörslu Náttúrugripasafnsins.
Stór hluti sýnanna hefur ekki verið fullgreindur og þarf til að koma aðstoð jarð- eða steinafræðings. Mörgum sýnanna fylgja aðeins tilvísanir í dagbækur StE, og standa vonir til þess að Náttúrugripasafnið fái brátt aðgang að þeim svo hægt verði að halda áfram flokkun, skráningu og rannsókn steinasafnsins.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is