Þetta græna skordýr er skortíta sem heitir baunatíta (Nezara viridula) og er skaðvaldur í ræktun í matjurtagörðum hitabeltislanda og á tempruðum svæðum í öllum heimsálfum. Baunatítan er jurtaæta sem lifir á ýmsum tegundum grænmetis. Sér til varnar gefur hún frá sér illa lyktandi vökva úr kirtlum á kviðnum og er þess vegna kölluð Green stink bug sem hægt er að þýða sem græn óþefja.
Ólafur Kristjánsson fann baunatítuna í síðustu viku á grænmeti sem hann keypti í búð á Vestfjörðum. Það er ekki alslæmt að finna skordýr á grænmetinu því það bendir til þess að ekki sé búið að eitra grænmetið með skordýraeitri. Í stað þess að nota eitur er oft notaðir fuglar, nokkrar tegundir tvívængja eða köngulær til að éta skordýrin af grænmetinu.
Baunatítan lifir ekki á Íslandi en hefur fundist sem slæðingur á nokkrum stöðum um land allt. Hún lifir ekki þar sem meðalhiti vetrar fer undir 5°C.
Starfsmenn Náttúrustofunnar eru mjög ánægðir með það þegar fólk kemur með framandi pöddur á stofuna og leyfir þeim að fylgjast með.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is