Í síðustu viku fannst stór lirfa í blómapotti Bonsai-trés á Bíldudal. Eigendur trésins eru Hlynur Vigfús Björnsson og Klara Harðardóttir en þau komu með lirfuna á starfsstöð NAVE á sunnanverðum Vestfjörðum. Lirfan er að öllum líkindum aldinbori og nærist á trjárótum, en bonsai-tréð var einmitt orðið frekar líflaust alveg sama hvernig Klara og Hlynur áttu við það. Síðasta úrræði var að skipta um mold á því en þá uppgvötaðist lirfan. Nú lifir lirfan, sem hefur fengið nafnið Ívar, í góðu yfirlæti í potti á starfstöð NAVE á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem áætlað er að ala hana þar til hún verður að bjöllu.
Ívari hefur verið mjög vel tekið af bæjarbúum á Bíldudal og eru t.d. allir úr grunnskólanum í þorpinu búnir að koma og heimsækja hann. Það er þó rétt að geta þess að þessar bjöllur geta verið miklir skaðvaldar þar sem að lirfurnar naga rætur nytjaplantna. Bjöllurnar eru algengar í Ameríku og Evrópu þar sem að t.d. dýr eins og þvottabirnir og skúnkar geta gert sér fæðu úr lirfunum.
Náttúrustofa Vestfjarða | Aðalstræti 12 | 415 Bolungarvík | kt 610397 2209 | sími: 456 7005 | netfang: nave [hjá] nave.is